Hamarsmenn fallnir – Öruggt hjá Þór

Nigel Pruitt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamarsmenn eru fallnir úr úrvalsdeild karla í körfubolta eftir átjánda tapleikinn í röð í kvöld, gegn Grindavík á heimavelli. Á meðan unnu Þórsarar öruggan sigur gegn Breiðabliki.

Grindvíkingar byrjuðu betur í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld en Hamar kom til baka í 2. leikhluta og staðan var 37-46 í hálfleik. Gestirnir juku forskotið lítillega í 3. leikhluta en Hamarsmenn játuðu sig ekki sigraða og náðu að minnka muninn í fimm stig í upphafi 4. leikhluta, 68-73. Þá kom 14-2 áhlaup frá Grindavík og munurinn orðinn nítján stig þegar lítið var eftir á klukkunni. Hamar klóraði í bakkann í lokin en lokatölur urðu 87-97, Grindavík í vil. Hamar enn án stiga þegar fjórar umferðir eru eftir og liðið fallið úr deildinni.

Franck Kamgain var stigahæstur Hamarsmanna með 28 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Dragos Diulescu skoraði 22 stig og Ragnar Nathanaelsson skoraði 19 stig og tók 10 fráköst.

Öruggur sigur Þórsara
Þór Þorlákshöfn heimsótti Breiðablik í Smárann og þar var engin spenna í leiknum. Þórsarar leiddu 12-30 eftir 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 40-58. Munurinn hélst svipaður allt til leiksloka og Þórsarar héldu öllum áhlaupum Blika í skefjum. Lokatölur urðu 82-105.

Nigel Pruitt og Tómas Valur Þrastarson skoruðu báðir 23 stig fyrir Þór og Pruitt tók 11 fráköst að auki. Jose Medina skoraði 16 stig, Fotios Lampropoulos og Jordan Semple 12 og Semple var sömuleiðis með 12 fráköst. Darwin Davis skoraði 11 stig og sendi 6 stoðsendingar.

Þórsarar eru í 2.-4. sæti deildarinner með 24 stig og eru í harðri baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

Fyrri greinFéll útbyrðis þegar kviknaði í léttabát Herjólfs
Næsta greinCircula/Recoma valið á fjárfestahátíð Norðanáttar