Hamarsmenn fallnir – Ægir tapaði fyrir Gróttu

Lið Hamars í Hveragerði er fallið úr 2. deild karla í knattspyrnu eftir 3-5 tap gegn ÍR á heimavelli í kvöld. Ægir tapaði á sama tíma fyrir Gróttu.

Leikur Hamars og ÍR einkenndist af mikilli baráttu en gestirnir nýttu sín færi betur og voru komnir í 0-3 eftir aðeins 22 mínútur. Þannig stóðu leikar í hálfleik en á tíundu mínútu síðari hálfleiks bættu ÍR-ingar fjórða markinu við.

Bæði lið luku leik með tíu menn inni á vellinum en leikmaður ÍR fékk rauða spjaldið á 55. mínútu og á 73. mínútu fékk Eiríkur Elvy sitt annað gula spjald og því jafnt í liðum.

Í kjölfar brottreksturs þessa raph-magnaða leikmanns spýttu Hamarsmenn í lófana og varnartröllið Sigurður Eyberg Guðlaugsson minnkaði muninn á 79. mínútu. Fjórum mínútum síðar skoraði fyrirliðinn Ingþór Björgvinsson og staðan því orðin 2-4.

Nær komust Hvergerðingar ekki því ÍR fékk vítaspyrnu í uppbótartíma og skoraði úr henni en strax mínútu síðar minnkaði Vignir Lúðvíksson muninn fyrir Hamar og lokatölur urðu 3-5.

Hamarsmenn eru með tíu stig á botni deildarinnar og eru fallnir niður í 3. deild þegar þrjár umferðir eru eftir.

Ægismenn eru ekki komnir af hættusvæðinu en þeir töpuðu í kvöld fyrir Gróttu, 3-0 á útivelli. Staðan var 1-0 í hálfleik en Grótta bætti við tveimur mörkum undir lok leiksins.

Ægir hefur 20 stig í 10. sæti og Höttur, sem er í 11. sætinu getur enn náð Þorlákshafnarliðinu að stigum.