Dapurt gengi Hamars í 4. deild karla í knattspyrnu heldur áfram en í kvöld tapaði liðið gegn KFS á erfiðum útivelli í Vestmannaeyjum.
Daníel Már Sigmarsson kom KFS yfir strax á 4. mínútu og hann var aftur á ferðinni á 16. mínútu og staðan orðin 2-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik en strax á 3. mínútu seinni hálfleiks skoraði Sæbjörn Jóhannsson og kom KFS í 3-0.
Það var fátt um svör hjá Hvergerðingum en þeir fengu vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleikinn og úr henni skoraði Tomas Alassia. Fleiri urðu mörkin ekki og KFS sigraði 3-1.
Eftir fimm umferðir er Hamar á botninum án stiga en KFS lyfti sér upp í 6. sætið með sigrinum og hefur 7 stig.