Hamarsmenn einir á toppnum – Selfoss tapaði

Everage Richardson átti frábæran leik fyrir Hamar í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar frá Hveragerði er í toppsæti 1. deildar karla í körfubolta eftir öruggan sigur á botnliði Snæfells í Stykkishólmi í kvöld. Selfoss tapaði gegn Fjölni úti.

Í Stykkishólmi tók Hamar öll völd í 1. leikhluta og leiddi 7-24 að honum loknum. Munurinn jókst jafnt og þétt allan leikinn en Hólmarar svöruðu aðeins fyrir sig í síðasta fjórðungnum. Staðan í hálfleik var 20-42 og lokatölur urðu 60-86.

Everage Richardson átti frábæran leik fyrir Hamar, skoraði 29 stig og var með 100% nýtingu úr tveggja stiga skotum. Florijan Jovanov var sömuleiðis góður, skoraði 15 stig og tók 9 fráköst. Gabríel Möller skoraði 10 stig, Oddur Ólafsson og Geir Helgason 7, Kristinn Olafsson 6, Mikael Rúnar Kristjánsson 4, Daníel Kristjánsson og Dovydas Strasunskas 3 og Marko Milekic 2 en hann tók 12 fráköst í leiknum.

Það var hart barist í Dalhúsum í Grafarvogi þar sem Selfoss heimsótti Fjölni. Selfoss byrjaði af krafti og leiddi 11-22 að loknum 1. leikhluta en staðan var 40-41 í leikhléi, eftir góðan kafla Fjölnis í 2. leikhluta. Þriðji leikhluti var jafn en í þeim fjórða varð algjört hrun hjá Selfyssingum sem skoruðu aðeins 7 stig gegn 23 í leikhlutanum. Fjölnir sigraði því 84-73.

Michael Rodriguez var bestur í liði Selfoss, skoraði 29 stig og sendi sjö stoðsendingar. Snjólfur Stefánsson skoraði 16 stig og tók 8 fráköst og Maciek Klimaszewski skoraði 12 stig. Adam Smári Ólafsson skoraði 7 stig og það gerði Ari Gylfason sömuleiðis, auk þess að taka 8 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 2 stig.

Hamar hefur 8 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur ekki tapað leik en Selfoss er í 6. sæti án stiga.

Fyrri greinSundmannakláði í Landmannalaugum
Næsta greinMarín mætir sterk til leiks