Hamarsmenn einir á toppnum

Hamarsmenn fagna stigi gegn Þrótti Vogum í síðustu viku. Ljósmynd/Valdimar Hafsteinsson

Karlalið Hamars í blaki hefur ekki setið auðum höndum undanfarna daga en liðið hefur leikið fjóra leiki í deildinni undanfarna tíu daga, tvo á heimavelli og tvo á útivelli.

Eins og áður hefur verið greint frá lagði Hamar Aftureldingu 3-1 sunnudaginn 24. janúar. Þremur dögum síðar heimsótti liðið Þrótt í Voga á Vatnsleysuströnd og sóttir þangað öruggan sigur, 3-0. Á sunnudag lagði liðið svo land undir fót og heimsótti Vestra á Ísafirði. Þar vannst enn einn 3-0 sigurinn þó Vestramenn hafi veitt ágætis mótspyrnu á köflum. Í kvöld áttust svo toppliðin, HK og Hamar við í Fagralundi en bæði lið voru taplaus fyrir leikinn í kvöld.

Hamarsmenn byrjuðu leikinn ef miklum krafti og unnu fyrstu hrinuna örugglega 25-18. Önnur hrinan var jöfn frá fyrstu mínútu. Hamarsmenn höfðu frumkvæðið í stigaskoruninni en gekk erfiðlega að hrista HK menn af sér. Loftið var þó úr HK mönnum eftir 20 stig og vann Hamar á endanum öruggan sigur 25-21.

Í þriðju hrinu virtust Hamarsmenn hafa þetta í höndum sér og náðu 10-6 forystu. Þá tók HK liðið við sér og náði forystu 12-11 en Hamarsmenn vöknuðu þá aftur til lífsins og unnu að lokum sannfærandi 25-19 og leikinn þar með 3-0.

Hamarsmenn eru nú einir liða með fullt hús stiga og sitja á toppi deildarinnar með 21 stig eftir 7 leiki. Í öðru sæti er HK með 15 stig eftir 6 leiki.

Fyrri grein7,5 milljónir króna til að styrkja sunnlenskar ræktunaraðferðir
Næsta greinRagnar markahæstur í endurkomuleiknum