Hamarskonur komust ekki á flug í fyrsta leik

Kvennalið Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tapaði 0-8 þegar liðið fékk ÍA í heimsókn í 1. umferð Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu á Grýluvöll í Hveragerði í dag. Hamar leikur í 2. deildinni í sumar en ÍA er deild ofar.

Þetta var fyrsti opinberi knattspyrnuleikur kvennaliðs Hamars en liðið var sett á laggirnar í vetur. Það var vel mætt á völlinn og meðal annars slepptu Hvergerðingar dúfum fyrir leik, til þess að fagna þessum tímamótum.

Dúfurnar tóku lystilega á loft en Hamarskonur komust ekki á flug í upphafi leiks því ÍA skoraði mark í tveimur fyrstu sóknum leiksins, þannig að staðan var orðin 0-2 eftir rúmlega tvær mínútur.

Hvergerðingar hristu úr sér hrollinn eftir það en ÍA var sterkari aðilinn allan leikinn og bætti við tveimur mörkum til viðbótar í fyrri hálfleik.

Staðan var 0-4 í leikhléi og gestirnir frá Akranesi skoruðu fjögur mörk til viðbótar í seinni hálfleiknum. Lokatölur 0-8.

Dúfurnar vöktu greinilega bæði gleði og ugg hjá leikmannahópi Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSelfyssingar meistarar meistaranna
Næsta greinStokkseyri og Árborg áfram í bikarnum