Hamarskonur í úrslit

Hamar mun leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna eftir að liðið lagði Keflavík í oddaleik í Hveragerði í kvöld, 93:81. Hamar sigraði 3:2 í einvíginu. Hamarskonur
fögnuðu gríðarlega í leikslok enda í fyrsta sinn sem liðið leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn eftir fjögurra ára veru í úrvalsdeild og í fyrsta sinn sem sunnlenskt lið kemst í færi við stóra titilinn.

“Það var allt undir í þessum leik en ég held að pressan hafi verið meiri á Keflavík. Okkur leið í það minnsta vel í leiknum og þó að þær hafi jafnað leikinn fyrir leikhlé þá olli það okkur ekki áhyggjum. Það var gott að einvígið fór í fimm leiki, núna erum við tilbúnar í hörkuleiki við KR og ég yrði ekki hissa þó að það yrðu fimm leikir líka,” sagði Julia Demirer sem lék frábærlega fyrir Hamar með 39 stig og 18 fráköst.

Hamar byrjaði betur í leiknum vel studdar af nær fullu húsi áhorfenda. Julia Demirer var illviðráðanleg í vítateig Keflavíkur og skoraði drjúgt strax í upphafi. Hamar var skrefi á undan í upphafi leiks en þá tók Birna Valgarðsdóttir stil sinna ráða og kom Keflvíkingum aftur inn
í leikinn.

Hamarskonur voru sterkari í síðari hálfleik. Demirer hélt áfram að drottna í teigunum og Kristrún Sigurjónsdóttir var dugleg að leita uppi samherja sína. Keflavík eygði von undir lok leiks en þá fóru Birna og Bryndís Guðmundsdóttir báðar útaf með fimm villur og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Hamar.

Einvígið við KR hefst á föstudag þegar liðin mætast í DHL höllinni kl. 19:15. Leikur tvö er í Hveragerði á mánudagskvöld og leikur þrjú í Reykjavík á miðvikudagskvöld. Komi til fleiri leikja verður leikið í Hveragerði laugardaginn 3. apríl kl. 16:00 og í Reykjavík á annan í páskum kl. 19:15.

Næsta greinÁgúst: KR er verðugt verkefni