Hamarskonur í frábærri stöðu

Fátt virðist ætla að ógna því að Hamarskonur tryggi sér toppsætið í 1. deild kvenna í körfubolta en liðið vann öruggan sigur á KFÍ í dag, 76-57.

KFÍ byrjaði betur í leiknum og leiddi að loknum 1. leikhluta, 15-19. Hamarskonur sneru leiknum sér í vil í 2. leikhluta og komust yfir fyrir hálfleik, 37-32.

Í seinni hálfleik voru Hamarskonur allan tímann skrefinu á undan og frábær byrjun í 4. leikhluta tryggði þeim 24 stiga forystu, 70-46, en Hamar skoraði fjórtán fyrstu stigin í leikhlutanum og gerðu þar með út um leikinn.

Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 22 stig og 10 fráköst. Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 16 stig og tók 15 fráköst og Jenný Harðardóttir skoraði einnig 16 stig. Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 15 stig og tók 9 fráköst.

Hamar hefur nú 18 stig á toppi deildarinnar en Stjarnan og Skallagrímur koma næst með 10 stig.

Fyrri greinEnginn í beltum og allir köstuðust út
Næsta greinAukning í sölu og framleiðslu