Hamarskonur frábærar gegn Keflavík

Hamar styrkti stöðu sína í efsta sæti Iceland Express-deildar kvenna í körfubolta með því að leggja liðið í 2. sæti, Keflavík, 95-63, í Hveragerði í dag.

Hamarsliðið lék á alls oddi í leiknum og eftir að hafa slípað til vankanta í vörninni í upphafi voru þær óstöðvandi það sem eftir lifði leiks.

Staðan var 40-27 í hálfleik og munurinn jókst í tuttugu stig fljótlega í síðari hálfleik. Hamarskonur slógu hvergi af og börðust af krafti til leiksloka og uppskáru 32 stiga sigur fyrir vikið.

Hvergi var veikan blett að finna á Hamarsliðinu. Slavica Dimovska skoraði 22 stig og Jaleesa Butler 21 auk þess að taka 18 fráköst. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 17 stig, Íris Ásgeirsdóttir 12 og Guðbjörg Sverrisdóttir 10 en hún tók 10 fráköst að auki. Fanney Guðmundsdóttir átti einnig góðan leik, með 8 stig og 8 fráköst, Jenný Harðardóttir smellti niður flautuþristi í lok 3. leikhluta og Bylgja Jónsdóttir skoraði 2 stig undir lok leiks.