Hamarskonur deildarmeistarar

Kvennalið Hamars feitletraði sig í sögubókum félagsins í kvöld með því að vinna deildarmeistaratitilinn í Iceland Express-deild kvenna þrátt fyrir tap gegn KR, 57-63.

Um leið og lokaflautið gall í Hveragerði var staðfest að Haukar unnu óvæntan sigur á Keflavík og þar með var titillinn Hamarskvenna.

Hamarsliðið var ekki sannfærandi í leiknum í kvöld og eftir slakan fyrri hálfleik var staðan 30-42 fyrir KR.

Hamar girti sig í brók, hélt KR í fjórum stigum í 3. leikhluta og komst yfir með síðasta skoti leikhlutans, 47-46. Fjórði leikhluti var æsispennandi en þegar leið að lokum voru KR-ingar einbeittari og unnu sanngjarnan sigur.

Við tók nokkurra sekúndna svekkelsi hjá Hamarsliðinu en þegar úrslitin í Keflavík voru ljós ærðist allt af fögnuði.

Hjá Hamri skoraði Jaleesa Butler 18 stig auk þess sem hún tók 18 fráköst. Fyrirliðinn Íris Ásgeirsdóttir kom næst með 12 stig.

Fyrri greinRagnar í úrvalsliðinu
Næsta grein„Stór titill fyrir Suðurland allt“