Hamarskonur áfram á toppnum

Hamar gerði góða ferð í Stykkishólm í dag þar sem liðið lagði Snæfell, 54-72, í Iceland Express-deild kvenna í körfuknattleik.

Hamar skoraði fyrstu 12 stigin í leiknum og komst í 3-17 áður en Snæfell skoraði fjögur síðustu stigin í 1. leikhluta.

Staðan í hálfleik var 24-32 en Hamarskonur juku forskotið smátt og smátt í seinni hálfleik.

Jaleesa Butler var stigahæst hjá Hamri með 24 stig og 11 fráköst. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 18 og Slavica Dimovska 13.

Athygli vakti að allir tólf leikmenn Snæfells komust á blað en enginn þeirra skoraði meira en Ellen Högnadóttir sem gerði 8 stig.