Hamarshöggin dundu síðasta hálftímann

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann stórsigur á Stokkseyringum þegar liðin mættust í Suðurlandsslag í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Grýluvelli urðu 7-1.

Hvergerðingar byrjuðu betur í leiknum og komust yfir strax á 12. mínútu með marki frá Aðalgeiri Friðrikssyni. Stokkseyringum gekk illa að sækja framan af leik, en áttu meðal annars góða tilraun úr aukaspyrnu frá gömlu kempunni Hennig Eyþóri Jónassyni sem fór rétt framhjá. Þar sem leikmannahópur Stokkseyrar var lemstraður vegna sóttkvíar og meiðsla var Henning kallaður út ásamt Arilíusi Marteinssyni. Talsverð reynsla þar á ferðinni og Arilíus var besti maður Stokkseyrar í kvöld.

Hamar átti nokkrar hættulegar sóknir en tókst ekki að koma boltanum í netið aftur fyrr en á 36. mínútu að Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði af stuttu færi. Á lokamínútu fyrri hálfleiks tókst Stokkseyringum loks að svara fyrir sig þegar Ágúst Freyr Jónasson skoraði eftir klafs í teignum hjá Hamri.

Staðan var 2-1 í hálfleik og bæði lið þreifuðu fyrir sér í upphafi seinni hálfleiks án þess að skora. Síðasta hálftímann tóku Hvergerðingar hins vegar yfir og allar flóðgáttir opnuðust. Atli Þór Jónasson skoraði úr aukaspyrnu á 62. mínútu og strax í kjölfarið komu mörk frá Kristni Ásgeir Þorbergssyni og annað frá Bjarka Rúnari.

Kristinn var aftur á ferðinni á 74. mínútu og Logi Geir Þorláksson rak svo smiðshöggið á vandaðan sigur Hamarsmanna með sjöunda markinu á lokamínútu leiksins. Lokatölur 7-1 og Hamar fór í toppsæti B-riðils með sigrinum með 32 stig, en KH sem er í 2. sæti er með 31 stig og á tvo leiki til góða. Bæði lið eru örugg í úrslitakeppnina. Stokkseyringar eru hins vegar í 5. sæti með 13 stig.

Tíu Uppsveitamenn kláruðu Smára
Þá unnu Uppsveitir góðan sigur á Smára á heimavelli á Flúðum í kvöld. Pétur Geir Ómarsson kom Uppsveitum yfir strax á 4. mínútu og reyndist það eina mark leiksins. Á 32. mínútu fékk Benedikt Farag að líta rauða spjaldið þannig að Uppsveitamenn spiluðu manni færri í klukkustund en það kom ekki að sök. Með sigrinum lyftu Uppsveitir sér upp í 6. sætið, uppfyrir Smára sem er í 7. sæti með 10 stig.

Fyrri greinSuðurlandsdjazzinn dunar
Næsta greinHamarskonur komust ekki á blað