Hamardrama á Dalvík – KFR tapaði

Hamar náði í stig á erfiðum útivelli á Dalvík í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Í 3. deildinni tapaði KFR heima gegn Kára.

Leikur Hamars gegn Dalvík/Reyni var mikill barningsleikur. Heimamenn komust yfir á 40. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik. Þannig var staðan allt þar til ein mínúta var eftir af leiknum en þá fengu Hvergerðingar vítaspyrnu. Fyrirliðinn Ingþór Björgvinsson fór á punktinn og tryggði Hamri eitt stig.

Í uppbótartímanum fóru tvö rauð spjöld á loft, eitt á hvort lið en Tómasi Hassing var vísað af velli á 96. mínútu.

Rangæingar riðu ekki feitum hesti gegn Kára á Hvolsvelli í kvöld. Gestirnir komust yfir á 34. mínútu en Ólafur Tryggvi Pálsson jafnaði metin fyrir KFR á 40. mínútu eftir hornspyrnu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Á 66. mínútu varð vendipunktur í leiknum þegar sóknarmaður Kára slapp innfyrir og dómarinn taldi að Ari Kristinsson markvörður KFR hefði brotið á honum. Rangæingar voru ósáttir við dóminn og töldu að ekki hefði verið um neina snertingu að ræða en dómaranum var ekki haggað og Ari fékk rautt og Káramenn víti sem þeir skoruðu úr.

Manni færri náðu Rangæingar ekki að skora þrátt fyrir fjölmörg tækifæri en gestirnir bættu þriðja markinu við eftir skyndisókn þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Hamar er í 11. sæti 2. deildarinnar með 10 stig en KFR er í 7. sæti deildarinnar með 12 stig.

Fyrri greinMaðurinn handtekinn í Miðhúsaskógi
Næsta greinGítartónlist og álfheimafræðsla á Sólheimum