Hamar varði Íslandsmeistaratitilinn

Hamarsmenn fagna með stuðningsmönnum sínum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlalið Hamars í blaki tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð með 3-0 sigri á HK í þriðja leik liðanna um titilinn. Hamar vann einvígið þar með 3-0 og hefur liðið náð þeim ótrúlega árangri að vinna alla titla sem hafa verið í boði frá því Hamar mætti til leiks í úrvalsdeildinni haustið 2020.

„Ég er mjög ánægður með þetta. Þetta er aðeins öðruvísi en í fyrra þar sem það var stórt afrek að vinna Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti. Þetta var kannski auðveldara að landa þessu núna, þó að við höfum fengið mun meiri samkeppni frá keppinautunum í vetur. Við erum lítið félag með fáa leikmenn og það gekk á ýmsu við æfingar á þessu covid-tímabili. En okkur tókst þetta, það var ekki auðvelt og við þurftum að leggja mikið á okkur og við lærðum líka mikið í leikjunum,“ sagði Radoslaw Rybak, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is.

Kristján Valdimarsson og Radoslaw Rybak fagna stigi í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sigurgangan er stórt afrek
„Við erum með reynda leikmenn og þeir hafa staðið sig vel, við erum búnir að tapa einum leik síðustu tvö árin. Það er stórt afrek fyrir okkur að halda þessari sigurgöngu og við erum mjög ánægðir með þetta,“ sagði hinn 49 ára gamli Rybak, sem var mögulega að spila sinn síðasta leik á löngum ferli í kvöld.

„Já, sennilega var þetta minn síðasti leikur. Það er ekki auðvelt að vera 49 ára og spila á þessu leveli. Það er mér mikil ánægja að spila með þessum ungu leikmönnum, ég hélt að skórnir væru á leiðinni upp í hillu fyrir tveimur árum en þetta hefur verið frábær tími fyrir mig. Mér líður eins og unglambi og ég er mjög ánægður hérna í Hveragerði. Það er fagleg umgjörð hjá Hamri og við erum búnir að spila mjög gott blak. Nú þarf félagið að byggja ofan á þennan góða árangur.“

Metmæting í Hveragerði
Það var frábær stemning í Hveragerði í kvöld en aldrei hafa jafn margir áhorfendur sést á blakleik í Hveragerði. Sigur Hamars var nokkuð öruggur, fyrstu tvær hrinurnar fóru 25-20 en þó að HK biti frá sér í þriðju hrinu vann Hamar hana að lokum 25-21. Úrslitin voru þar með ljós og var titlinum fagnað innilega af leikmönnum og stuðningsmönnum.

Frá því úrvalsdeildarlið Hamars var stofnað árið 2020 hefut liðið unnið alla titla sem í boði hafa verið síðan. Hamarsmenn eru tvöfaldir deildarmeistarar, tvöfaldir Kjörísbikarmeistaar, Meistarar meistaranna og nú tvöfaldir Íslandsmeistar.

Hafsteinn Valdimarsson, fyrirliði Hamars og Kristján bróðir hans lyfta Íslandsmeistarabikarnum í Hveragerði í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Fyrri greinValur stakk af í lokin
Næsta greinMatvæli eða öskuhaugar