Hamar varði bikarmeistaratitilinn

Hamarsmenn fagna bikarmeistaratitlinum með stuðningsmönnum sínum. Ljósmynd/Mummi Lú

Karlalið Hamars í blaki varði bikarmeistaratitil sinn um helgina með öruggum 3-0 sigri á KA í úrslitaleik Kjörísbikarsins á sunnudag. Áður hafði Hamar slegið HK út í undanúrslitaleiknum, 3-1.

Hamar mætti til keppni eins og stormsveipur á síðasta keppnistímabili en liðið varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari og á nú góða möguleika á því að vinna þrennuna annað árið í röð.

Úrslitaleikur Kjörísbikarsins var jafn framan af en um miðja fyrstu hrinu tóku Hamarsmenn á sprett og unnu hrinuna 25-19. Önnur hrinan spilaðist svipað en Hamar tók hana einnig á lokakaflanum og vann 25-21. KA byrjaði betur í þriðju hrinu og komst í 10-4 en Hamar jafnaði 15-15 og komst yfir í kjölfarið og sigraði 25-22 og leikinn þar með 3-0.

Radoslaw Rybak, spilandi þjálfari Hamars, var virkilega öflugur í úrslitaleiknum en hann skoraði 15 stig og Tomek Leik kom næstur honum með 13 stig.

Fyrri greinFéll þrjá metra fram af húsþaki
Næsta greinRangæingar sterkari á svellinu