Hamar vann toppslaginn á Egilsstöðum

Hamar verður í toppbaráttu en Selfyssingar í basli ef eitthvað er að marka spárnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar hafði betur í toppslagnum gegn Hetti í 1. deild karla í körfubolta á Egilsstöðum í kvöld, 70-75.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Höttur leiddi í hálfleik, 38-35, en Hamarsmenn voru sterkari í seinni hálfleiknum. Höttur hafði þó forystuna lengi vel en Hvergerðingar skelltu í lás þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af leiknum og skoruðu níu síðustu stig leiksins.

Everage Richardson var besti maður vallarins í kvöld, hann skoraði 30 stig og tók 16 fráköst auk þess að senda 6 stoðsendingar. Michael Philips skoraði 19 stig og Matej Buovac 12.

Þrátt fyrir tapið heldur Höttur toppsætinu með 28 stig en Hamar er í 2. sæti með 26 stig og á leik til góða á Hattarmenn. 

Fyrri greinÞór varð undir á lokakaflanum
Næsta greinViðbúnaður dýraeigenda vegna náttúruhamfara