Hamar vann toppslaginn

Nat-vélin var betri en enginn í kvöld.. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar, sem situr í 2. sæti 1. deildar karla í körfubolta, tók á móti toppliði Álftaness í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld.

Eftir hörkuleik hafði Hamar betur og jafnaði þar með Álftanes að stigum en Álftnesingar halda þó toppsætinu þar sem þeir hafa betur í innbyrðis viðureignum. Bæði lið eru með 34 stig.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Hamar leiddi 51-49 í leikhléi og þegar 4. leikhluti hófst skiptust liðin á um að hafa forystuna. Um miðjan 4. leikhluta gerði Hamar 16-4 áhlaup og sneri leiknum sér þar endanlega í vil. Álftanes komst ekki nógu nálægt á lokamínútunum og maður kvöldsins, Ragnar Nathanaelsson, lokaði leiknum með troðslu sem tryggði Hamri 98-91 sigur.

Jose Medina var stigahæstur Hvergerðinga með 24 stig og Mirza Sarajlija skoraði 22 en maður kvöldsins var Ragnar Nathanaelsson sem skoraði 19 stig, tók 15 fráköst, sendi 6 stoðsendingar og varði 5 skot.

Hamar-Álftanes 98-91 (26-29, 25-20, 23-23, 24-19)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 24/7 stoðsendingar, Mirza Sarajlija 22/6 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 19/15 fráköst/6 stoðsendingar/5 varin skot, Brendan Howard 13/8 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 8, Daði Berg Grétarsson 6, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6.

Fyrri greinÞær vínrauðu slegnar út af laginu
Næsta greinDrunur heyrðust frá Laugarvatnsfjalli