Hamar vann toppslaginn

Pálmi Geir Jónsson átti frábæran leik fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar er í efsta sæti 1. deildar karla í körfubolta eftir sigur í uppgjöri toppliðanna í kvöld, en Hamar heimsótti Álftanes í Forsetahöllina.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Hamar komst yfir í 2. leikhluta og leiddi 44-45 í hálfleik. Álftnesingar mættu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og náðu góðu forskoti á meðan ekkert gekk upp hjá Hamri. Staðan var 72-58 þegar 4. leikhluti hófst en Hamar gerði þá 15-3 áhlaup og breytti stöðunni í 75-73. Hvergerðingar komust yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og þeir voru funheitir á lokakaflanum og tryggðu sér á endanum 83-92 sigur.

Jose Aldana var stigahæstur hjá Hamri með 31 stig, Ragnar Ragnarsson skoraði 22, Pálmi Jónsson 16, Michael Philips 12 og Ruud Lutterman 11 en Philips og Lutterman tóku báðir 13 fráköst í leiknum.

Selfoss byrjaði illa
Selfyssingar gerðu ekki jafn góða ferð í Borgarnes en þar töpuðu þeir í kvöld gegn Skallagrími, 88-64. Skallagrímur byrjaði leikinn vel og leiddi í leikhléi, 49-27. Leikurinn var jafnari í seinni hálfleik en Selfyssingum tókst ekki að minnka muninn.

Terrence Motley var stigahæstur hjá Selfossi með 13 stig og 8 fráköst, Sveinn Búi Birgisson lék vel, skoraði 11 stig og tók 6 fráköst og Kristijan Vladovic skoraði sömuleiðis 11 stig og sendi 7 stoðsendingar.

Hamar hefur nú 6 stig í efsta sæti deildarinnar en Selfoss er í 7. sæti með 2 stig.

Fyrri greinSannfærandi sigur á heimavelli
Næsta greinUm 70 ungir einstaklingar greinast árlega með krabbamein