Hamar vann toppslaginn

Úr leik hjá Hamri í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann gríðarlega mikilvægan sigur á Skallagrími í toppbaráttu C-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í Hveragerði í kvöld.

Bjarki Rúnar Jónínuson kom Hamri yfir á 26. mínútu og tæpum tíu mínútum síðar skoruðu Skallagrímsmenn sjálfsmark eftir snarpa sókn Hamars.

Staðan var 2-0 í hálfleik en Ingþór Björgvinsson kom Hamri í 3-0 þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Hreppamaðurinn Magnús Helgi Sigurðsson minnkaði muninn fyrir Skallagrím á 73. mínútu og Arnar Eiríksson bætti við marki fyrir þá gulgrænu í uppbótartíma. 

Jón Bjarni Sigurðsson átti hins vegar síðasta orðið þegar hann skoraði fjórða mark Hamars á fjórðu mínútu uppbótartímans og tryggði Hamri 4-2 sigur.

Með sigrinum hrifsuðu Hamarsmenn toppsætið af Skallagrími og eru Hvergerðingar nú í góðum málum í efsta sæti riðilsins með 15 stig.

Fyrri greinDagur íslenska fjárhundsins
Næsta greinGlæsilegir Sumarsöngvar framundan á Selfossi