Hamar vann toppslaginn

Máté Dalmay, þjálfari Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann gríðarlega þýðingarmikinn sigur á Breiðabliki í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld, 87-93.

Breiðablik tók fljótlega frumkvæðið í 1. leikhluta og náði mest sjö stiga forskoti. Hamar elti eins og skugginn fram í 2. leikhluta en um hann miðjan gerði Breiðablik 13-3 áhlaup og breytti stöðunni í 51-38. Hamar skoraði hins vegar síðustu níu stigin í fyrri hálfleik og staðan var 51-47 í leikhléi.

Þriðji leikhlutinn var í járnum, Blikar voru skrefinu á undan en Hamar hleypti þeim aldrei langt frá sér.

Á lokakaflanum voru Hvergerðingar sterkari. Þeir byrjuðu vel í 4. leikhluta og jöfnuðu 79-79 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Blikar komust aftur fjórum stigum yfir en á síðustu þremur mínútunum skellti Hamar í lás og gerði 11-2 áhlaup sem dugði til sigurs.

Everage með þrefalda tvennu
Everage Richardson átti frábæran leik fyrir Hamar og náði þrefaldri tvennu, skoraði 17 stig, tók 12 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. Michael Philips var sömuleiðis sterkur með 24 stig og 8 fráköst. Styrmir Snær Þrastarson skoraði 15 stig og Matej Buovac 13.

Staðan í deildinni er þannig eftir 18 leiki að Höttur er með 32 stig í toppsætinu, Hamar 32 stig í 2. sæti og Breiðablik 30 stig í 3. sæti.

Fyrri greinGlæsilegur öldungur á rúntinum
Næsta greinSelfoss fær reynslumikinn sóknarmann