Hamar vann toppliðið – Stokkseyri fékk skell

Hamar situr eftir með sárt ennið eftir að hafa sigrað topplið Kórdrengjanna 3-1 í kvöld í lokaumferð riðlakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu.

Þrátt fyrir sigurinn var ljóst fyrir lokaumferðina að Hamar kemst ekki í úrslitakeppnina 4. deildarinnar. Liðið hefur 28 stig í 3. sæti A-riðils, þremur stigum á eftir Hvíta riddaranum og sex stigum á eftir Kórdrengjunum. Tvö efstu liðin fara í úrslitakeppnina.

Hamar komst yfir á 29. mínútu með marki Liam Killa og á upphafsmínútum seinni hálfleiks bætti Magnús Otti Benediktsson við öðru marki fyrir Hamar. Kórdrengirnir minnkuðu muninn á 62. mínútu en Magnús Otti tryggði Hamri 3-1 sigur með öðru marki sínu undir lok leiks.

Í B-riðlinum tók Stokkseyri á móti Augnabliki. Gestirnir komust í 0-2 á fyrstu tuttugu mínútunum en Stokkseyri náði að jafna metin, 2-2. Barði Páll Böðvarsson skoraði á 28. mínútu og Þórhallur Aron Másson tæpum tíu mínútum síðar. ÍH skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks á lokamínútunni og staðan var 2-3 í leikhléi. Í seinni hálfleik hrundi leikur Stokkseyringa og ÍH skoraði sex mörk á síðasta hálftímanum. Lokatölur 2-9.

Stokkseyri lauk leik í 8. sæti B-riðils með 13 stig. Keppni í riðlinum lýkur á morgun en þá heimsækir KFR Elliða og á sama tíma mætast Árborg og Hrunamenn í C-riðlinum.

Fyrri greinÞrenn verðlaun veitt
Næsta greinJafnt hjá Selfossi og HK