Hamar vann Suðurlandsslaginn

Everage Richardson skoraði 22 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann Selfoss í sveiflukenndum leik í 1. deild karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld, 82-75.

Hvergerðingar byrjuðu leikinn af krafti og leiddu 28-14 eftir 1. leikhluta. Leikurinn var jafnari í 2. leikhluta en Hamar hafði áfram forystuna í leikhléi, 50-35.

Selfossliðið kom frábærlega stemmt inn í seinni hálfleikinn og þeir náðu að jafna, 60-60, undir lok 3. leikhluta. Hamar svaraði strax fyrir sig og hafði frumkvæðið í framhaldinu. Hamar náði 10-2 áhlaupi í upphafi 4. leikhluta og náði að halda Selfyssingum í skefjum það sem eftir lifði leiks.

Everage Richardson var bestur í liði Hamars, skoraði 32 stig og tók 12 fráköst. Pálmi Geir Jónsson skoraði 19 og Ragnar Ragnarsson og Danero Thomas voru báðir með 10 stig.

Hjá Selfyssingum var Christian Cunningham öflugastur, en hann var með hæstu framlagseinkunn allra á vellinum í kvöld, skoraði 23 stig og tók 15 fráköst. Ragnar Magni Sigurjónsson skoraði 17 stig og Rhys Sundimalt 12.

Hamar er áfram í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki. Selfyssingar eru í 6. sæti með 2 stig og hafa leikið einum leik færra.

Fyrri greinBergrún Anna hreppti Hljóðkútinn
Næsta greinVeðrið hefur áhrif á Strætó á landsbyggðinni