Hamar vann Suðurlandsslaginn – Hrunamenn hressir á Skaganum

Jose Medina sækir að körfu Selfoss í kvöld en Ísar Freyr Jónasson er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss buðu upp á alvöru Suðurlandsslag í 1. deild karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Á sama tíma unnu Hrunamenn öruggan útisigur á ÍA.

Selfyssingar fóru betur af stað í Hveragerði í kvöld en Hamar skoraði átta stig í röð undir lok fyrri hálfleiks og jafnaði 36-36. Selfoss átti síðasta orðið í fyrri hálfleik og staðan var 36-39 í leikhléi.

Selfoss leiddi með litlum mun allan 3. leikhlutann en í upphafi þess fjórða komst Hamar yfir og í kjölfarið tók við æsispennandi kafli þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna. Á síðustu fjórum mínútunum hikstuðu gestirnir, Hamar skoraði níu stig í röð og hékk svo á sigrinum eftir áhlaup Selfyssinga á lokamínútunum. Lokatölur urðu 82-78.

Jose Medina daðraði við þrefalda tvennu hjá Hamri, skoraði 28 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Ragnar Nathanaelsson var í miklum ham með enn eina tröllatvennuna, 24 stig og 18 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 19 stig. Hjá Selfyssingum fór Kennedy Aigbogun mikinn með 25 stig og 9 fráköst, Gerald Robinson skoraði 16 stig, Srdan Stojanovic 12, Arnaldur Grímsson 11 og Ísak Júlíus Perdue 10.

Öruggt hjá Hrunamönnum
Á Akranesi unnu Hrunamenn öruggan sigur á ÍA. Hrunamenn voru með frumkvæðið allan tímann og juku forskotið jafnt og þétt. Staðan í hálfleik var 44-56 og Hrunamenn bættu í í seinni hálfleik og sigruðu að lokum 83-104.

Samuel Burt og Ahmad Gilbert voru stigahæstir hjá Hrunamönnum, báðir með 23 stig en Gilbert tók 11 fráköst að auki og sendi 7 stoðsendingar. Eyþór Orri Árnason skoraði 14 stig, Hringur Karlsson 13, Yngvi Freyr Óskarsson 12 og Friðrik Vignisson 10.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 3. sæti með 10 stig, Selfoss í 5. sæti með 6 stig og Hrunamenn í 7. sæti, sömuleiðis með 6 stig.

Fyrri greinSvava ráðin framkvæmdastjóri FSRV
Næsta greinUngmennin kváðu Kórdrengi í kútinn