Hamar vann Suðurlandsslaginn

Óliver Þorkelsson í leik með Hamri síðasta sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikil spenna í loftinu þegar leikur Hamars og Uppsveita hófst í 1. umferð 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í Hveragerði í dag.

Uppsveitamenn mæta tvíefldir til leiks á sínu öðru keppnistímabili og í liði þeirra eru meðal annars tveir fyrrum leikmenn Hamars ásamt aðstoðarþjálfaranum Liam Killa. Það þurfti því ekki að koma á óvart að spennustigið var hátt og á köflum var gríðarlega hart barist í leiknum, en að mestu drengilega.

Hamarsmenn voru mun sterkari í fyrri hálfleik og sóknir þeirra þyngdust jafnt og þétt. Ísinn brotnaði loksins á 33. mínútu að fyrirliðinn Matthías Rocha kom boltanum í netið eftir hornspyrnu og aðeins fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Óliver Þorkelsson forskot Hamars með frábæru marki. Óliver, sem er 16 ára gamall og uppalinn hjá Hamri, var að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik.

Staðan var 2-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var tíðindaminni. Uppsveitamenn fóru greinilega vel yfir málin í hálfleik því þeim gekk mun betur að spila boltanum í seinni hálfleik og áttu ágætar sóknir inn á milli. Pétur Geir Ómarsson, fyrrum leikmaður Hamars, fékk langbesta færi Uppsveita en tókst ekki að skora og hinu megin á vellinum átti Atli Þór Jónasson stangarskot eftir hörkusókn. Mörkin í leiknum urðu hins vegar ekki fleiri og lokatölur því 2-0.

Fyrri greinÍsland fulltengt fyrir árslok 2025
Næsta greingímaldin í Gamla sláturhúsinu