Hamar vann Suðurlandsslaginn

Hamar vann öruggan sigur á FSu þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfubolta í kvöld í Frystikistunni í Hveragerði.

Hamar byrjaði leikinn betur og hafði nokkuð gott forskot í fyrri hálfleiknum. Staðan var 53-28 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í 3. leikhluta en í þeim fjórða náði Hamarsmenn mest 21 stigs forskoti áður en þeir gerðust full kærulausir. FSu lokaði leiknum á 16-5 áhlaupi sem kom allt of seint. Að lokum skildu tíu stig liðin að, 85-75.

Christopher Woods var sínum gömlu félögum erfiður en hann skoraði 24 stig og tók 15 fráköst. Örn Sigurðarson skoraði 17 stig, Oddur Ólafsson 15 og Smári Hrafnsson 13.

Terrence Motley var allt í öllu hjá FSu, hann skoraði 41 stig og tók 15 fráköst. Ari Gylfason kom næstur honum með 19 stig og Orri Jónsson skoraði 9.

Með sigrinum fór Hamar upp fyrir FSu á stigatöflunni. Hvergerðingar hafa nú 8 stig í 5. sæti deildarinnar en FSu hefur jafnmörg stig og er einu sæti neðar.

Áhorfendur á þessum Suðurlandsslag voru tæplega fimmtíu talsins og varamannabekkur Hamars sá að mestu um hvatningarhrópin inn á völlinn.

Fyrri greinJólaljósin kveikt í kuldanum
Næsta greinRekstur bæjarsjóðs áfram erfiður