Hamar vann slaginn um Suðurland

Hamar vann góðan sigur á Árborg á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag, 0-1.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Árborgarliðið var nær því að skora en tvö góð færi fóru í súginn.

Staðan var 0-0 í hálfleik og baráttan hélt áfram í seinni hálfleik. Varamaðurinn Ragnar Valberg Sigurjónsson skoraði sigurmark leiksins um miðjan seinni hálfleik eftir hornspyrnu Hamarsliðsins.

Eftir markið reyndu Árborgarar hvað þeir gátu að jafna en leikskipulag þeirra rann út í sandinn á lokakaflanum þar sem þeir reyndu kýlingar fram í stað þess að spila boltanum upp völlinn.

Þetta var fyrsti sigur Hamars í deildinni í sumar en Árborgarar sitja stigalausir í botnsætinu eftir tvær umferðir.

Fyrri greinÆgir tapaði í markaleik
Næsta greinEldgos hafið í Grímsvötnum