Hamar vann síðasta leikinn

Hamar vann Njarðvík með minnsta mun í Lengjubikar kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Reykjanesbæ, 78-79.

Heimamenn byrjuðu leikinn á þriggja stiga körfu en Hamar skoraði sex næstu stig leiksins og leiddu mestan hluta 1. leikhluta. Staðan var 25-26 að honum loknum.

Njarðvík komst yfir í 2. leikhluta og náði mest tíu stiga forskoti, 52-42 en staðan var 54-47 í hálfleik eftir að Jenný Harðardóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir höfðu lagað stöðuna fyrir Hvergerðinga.

Hamar byrjaði frábærlega í síðari hálfleik en þær skoruðu tíu fyrstu stigin og komust yfir, 54-57. Hvergerðingar létu svo sverfa til stáls og luku þriðja fjórðungnum á 8-2 kafla og leiddu því 61-69.

Eftir þennan góða kafla gaf Hamar heldur betur eftir í fjórða leikhluta því Njarðvík byrjaði á 13-2 leikkafla og komst aftur yfir, 74-71 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það skoruðu hittu liðin illa í næstu sóknum og stigin voru fá.

Síðasta mínútan var mjög fjörug en Jenný kom Hamri yfir þegar 41 sekúnda var eftir, 78-79. Eftir það skiptust liðin á um að missa boltann og misnota skot en Hamar hélt sínu og Álfheiður náði að stela boltanum af Njarðvíkingum þegar níu sekúndur voru eftir af leiknum. Leikklukkan rann svo út án þess að Hamar bætti við.

Hannah Tuomi var sem fyrr besti leikmaður Hamars með 25 stig, Jaleesa Ross skoraði 20 stig og Álfhildur átti fínan leik með 13 stig og 10 fráköst. Jenný skoraði 11 stig og tók 7 fráköst.

Þetta var síðasti leikur Hamars í riðlinum en liðið vann tvo leiki og tapaði tveimur.

Fyrri greinLítið eldgos í Kötlu í sumar
Næsta greinHSu semur við Landsvirkjun