Hamar vann öruggan sigur á HK

Úr leiknum í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

HK úr Kópavogi heimsótti Hamar í Hveragerði í kvöld í úrvalsdeild karla í blaki. Fyrir leikinn sátu heimamenn á toppi deildarinnar en ungt og efnilegt lið HK á botninum.

Það var á brattann að sækja hjá gestunum frá fyrstu mínútu. Heimamenn náðu fljótt þægilegri forystu í hrinunum sem þeir héldu nokkuð örugglega þrátt fyrir ágæta spretti HK inn á milli.

Fór svo að Hamar vann hrinurnar 25-19, 25-16 og 25-15 og leikinn þar með 3-0.

Stigahæstur í liði Hamars var Hafsteinn Valdimarsson með 10 stig en í liði gestanna var það Tómas Davíðsson með 7 stig.

Fyrri greinJólasveinarnir koma á Selfoss
Næsta greinLúðrasveitin fékk hæsta styrkinn úr lista- og menningasjóðnum