Hamar sigraði Snæfell 99-85 í oddaleik í úrslitakeppni 1. deildar karla í Hveragerði í kvöld. Hamar mætir næst Fjölni í undanúrslitum deildarinnar.
Þetta var fimmti leikur Hamars og Snæfells en frammistaða Hvergerðinga hafði verið mjög sveiflukennd í gegnum einvígið. Þeir mættu hins vegar einbeittir til leiks í kvöld og þegar leið á leikinn héldu þeim engin bönd.
Snæfell skoraði síðustu sex stigin í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 17-22. Forskot gestanna jókst í níu stig í upphafi 2. leikhluta en Hvergerðingar náðu aftur forystunni með því að skora fimm þriggja stiga körfur á síðustu fjórum mínútum fyrri hálfleiks. Staðan var 45-36 í leikhléi.
Hamarsmenn héldu áfram að hitta vel í 3. leikhluta og þeir juku forskotið í sextán stig, 76-60. Björninn var svo endanlega unninn með tíu stigum Hamars í röð um miðjan 4. leikhluta. Þá var staðan orðin 92-70 og tíminn að renna út hjá Snæfellingum.
Jose Medina var stigahæstur Hvergerðinga með 29 stig og 12 stoðsendingar. Birkir Máni Daðason átti sömuleiðis frábæran leik, skoraði 24 stig og tók 7 fráköst. Þá var Jaeden King drúgur að vanda með 19 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.