Hamar vann nágrannaslaginn

Hamar tók á móti nágrönnum sínum í FSu í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Eftir jafnan og spennandi leik höfðu Hamarsmenn betur. Á sama tíma töpuðu Gnúpverjar naumlega fyrir Fjölni.

Jafnræði var með liðunum í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 24-21. FSu skoraði síðan fyrstu sautján stigin í 2. leikhluta og breytti stöðunni í 24-38. Þá tóku Hvergerðingar við sér og þeir náðu að minnka muninn niður í tvö stig, 41-43, en staðan var 41-45 í leikhléi.

Hamarsmenn mættu sterkari inn í seinni hálfleikinn og komust fljótlega sex stigum yfir, 53-47. Eftir það var leikurinn í járnum og lítið sem skildi á milli liðanna allt fram á lokamínúturnar. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum leiddi FSu 77-81. Hamar skoraði hins vegar tíu stig gegn tveimur á síðustu þremur mínútunum og tryggðu sér 87-83 sigur.

Larry Thomas var besti maður vallarins í gær en hann var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig. Þorgeir Freyr Gíslason átti einnig góðan leik. Hjá gestunum var Florijan Jovanov öflugur undir báðum körfunum og Jett Speelman var einnig atkvæðamikill.

Naumt tap hjá Gnúpverjum
Á sama tíma sóttu Gnúpverjar Fjölni heim í Grafarvoginn. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi 42-39. Gnúpverjar náðu góðu áhlaupi í 3. leikhluta og staðan var orðin 57-74 í upphafi 4. leikhluta. Þá kom skelfilegur kafli þar sem Fjölnir skoraði 22 stig gegn 2 stigum Gnúpverja og staðan var þá 81-78 og þrjár mínútur eftir. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Fjölni tókst að tryggja sér eins stigs sigur, 92-91, með vítaskoti þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Eins og áður var Everage Richardson frábær í liði Gnúpverja og skoraði 45 stig.

Þegar sex umferðum er lokið í 1. deildinni er Hamar í 6. sæti með 6 stig, Gnúpverjar í 7. sæti með 7 stig og FSu í 8. sæti án stiga.

Tölfræði Hamars: Larry Thomas 23/6 fráköst/5 stolnir, Þorgeir Freyr Gíslason 17/10 fráköst, Julian Nelson 15/5 fráköst, Arnór Ingi Ingvason 9, Oddur Ólafsson 8/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ísak Sigurðarson 8/4 fráköst, Smári Hrafnsson 7.

Tölfræði FSu: Jett Speelman 27/11 fráköst, Florijan Jovanov 24/12 fráköst, Maciek Klimaszewski 12/6 fráköst, Hlynur Hreinsson 9/7 stoðsendingar, Ari Gylfason 5, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2, Jón Jökull Þráinsson 2, Hilmir Ægir Ómarsson 2.

Tölfræði Gnúpverja: Everage Lee Richardson 45/5 fráköst, Þórir Sigvaldason 12, Bjarki Rúnar Kristinsson 8, Garðar Pálmi Bjarnason 8, Ægir Hreinn Bjarnason 8, Elvar Sigurðsson 5, Eyþór Ellertsson 3, Svavar Geir Pálmarsson 2, Hákon Már Bjarnason 6 fráköst.

Fyrri greinBókakynning og léttir tónar á Mika
Næsta greinMílan tapaði úti