Hamar vann – KFR tapaði

Hamar lagði KB örugglega á meðan KFR tapaði fyrir Augnabliki í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag.

Augnablikar voru sterkari framan af leiknum gegn KFR, sem fram fór á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi. Staðan var 1-0 í hálfleik en Augnablik bætti við tveimur mörkum í síðari hálfleik og eftir 75 mínútur var staðan orðin 3-0. Diego Marínes og Guðmundur Guðmundsson minnkuðu muninn í 3-2 á síðustu fimm mínútum leiksins en nær komust Rangæingar ekki.

Hamar vann KB 4-1 en liðin mættust í Kórnum í Kópavogi. Örn Rúnar Magnússon kom Hamri yfir á 8. mínútu en Breiðhyltingar jöfnuðu leikinn þremur mínútum síðar. Staðan var 1-1 í hálfleik. Vigfús Geir Júlíusson kom Hamri aftur yfir með marki úr vítaspyrnu á 66. mínútu og áður en yfir lauk höfðu Andri Magnússon og Tómas Ingvi Hassing bætt við mörkum fyrir Hvergerðinga.