Hamar vann í hörkuleik – Árborg og KFR töpuðu

Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði sigurmark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar sigraði Skallagrím í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Árborg tapaði fyrir GG og KFR tapaði fyrir RB.

Það var jarðhiti í Hveragerði í kvöld þar sem tólf gul spjöld fóru á loft en aðeins eitt mark var skorað. Bjarki Rúnar Jónínuson kom Hamri í 1-0 á 23. mínútu og þar við sat. Hamar tyllti sér í toppsæti B-riðilsins með sigrinum og hefur 19 stig en Skallagrímur er í 4. sæti með 10 stig.

KFR fékk RB í heimsókn á Hvolsvöll. Gestirnir úr Reykjanesbæ komust í 0-3 áður en Rangæingar svöruðu fyrir sig. Hjörvar Sigurðsson fékk rautt spjald fyrir brot á 77. mínútu en manni færri náði KFR að minnka muninn í 2-3 og skoraði varamaðurinn Trausti Rafn Björnsson bæði mörkin á síðustu tveimur mínútum leiksins. KFR tókst ekki að jafna og lokatölur urðu 2-3.

Leikmenn Árborgar voru svekktir eftir heimsókn sína til Grindavíkur í kvöld þar sem þeir mættu GG. GG komst í 2-0 á þriggja mínútna kafla í fyrri hálfleik en Ingi Rafn Ingibergsson minnkaði muninn í 2-1 með marki úr vítaspyrnu á 75. minútu og þær urðu lokatölur leiksins.

Árborg og KFR eru saman í A-riðlinum, Árborg er í 3. sæti með 10 stig en KFR í 6. sæti með 6 stig. Næsti leikur liðanna er innbyrðis stórleikur á Selfossvelli á miðvikudaginn í næstu viku.

Fyrri greinÞórsarar lentu á vegg
Næsta greinGleðistundir hefjast á nýjan leik