Hamar vann en Selfoss tapaði

Pálmi Geir Jónsson átti frábæran leik fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann góðan útisigur á Sindra í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Selfoss tapaði gegn Breiðabliki, sömuleiðis á útivelli.

Hamar tók strax forystuna gegn Sindra og leiddi 46-52 í hálfleik. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en Sindri náði að minnka muninn niður í fjögur stig í 4. leikhluta. Þá bætti Hamar í aftur og vann að lokum 92-103.

Michael Philips var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig og 11 fráköst, Pálmi Geir Jónsson skoraði 19 stig, Ragnar Jósef Ragnarsson 16, Styrmir Snær Þrastarson 15 og Everage Richardson 11.

Selfoss byrjaði vel gegn Breiðabliki, náði mest 11 stiga forskoti í fyrri hálfleik og leiddi í leikhléi, 39-44. Blikar mættu mun betur stemmdir inn í seinni hálfleikinn. Þeir skoruðu fyrstu sjö stigin og komust yfir en Selfoss svaraði strax fyrir sig. Blikarnir reyndust hins vegar sterkari undir lok 3. leikhluta og náðu þar forystunni og héldu henni út leikinn.

Eftir leiki kvöldsins hafa Breiðablik, Hamar og Höttur öll 28 stig í 1.-3. sæti en Selfoss er í 6. sæti með 10 stig.

Fyrri greinTvö HSK met á RIG
Næsta greinEva María keppir á NM