Hamar vann 50 ára afmælismót HSK í blaki

Sigurlið Hamars. Ljósmynd/HSK

Þrjú lið tóku þátt í héraðsmóti karla í blaki í vetur og úrslit réðust í seinni hluta mótsins sem fram fór í Hveragerði á dögunum.

Í ár eru 50 ár síðan að fyrsta HSK mótið í blaki karla var haldið, en það fór fram á Laugarvatni 28. apríl 1974. Fimm lið tóku þátt í fyrsta mótinu og voru þau frá Umf. Laugdæla, Umf. Biskupstungna, Umf. Samhygð, Umf. Selfoss og Umf. Ingólfi.

Kjartan Lárusson í Austurey var í sigurliði Laugdæla á fyrsta mótinu, þá 19 ára gamall. Hann var mættur í Hveragerði með sínum mönnum á 50 ára afmælismótið og byrjaði inná í leiknum við Hrunamenn og skoraði fyrsta stig mótsins.

Hamar vann átta lotur á mótinu í vetur og tryggði sér HSK meistaratitilinn þriðja árið í röð og þann áttunda frá upphafi. Laugdælir urðu í öðru sæti með fimm unnar lotur og Hrunamenn í þriðja með þrjár unnar lotur.

Þess má geta að Hrunamenn hafa unnið mótið oftast á þessum 50 árum, en þeir eru samtals með 21 titil, Samhygð hefur unnið 12 sinnum, Laugdælir sjö sinnum og Mímir einu sinni.

Kjartan Lárusson og félagar í Laugdælum. Ljósmynd/HSK
Fyrri grein„Geggjað að klára þetta svona“
Næsta greinFyrsta skóflustungan að fimm íbúða raðhúsi Bjargs