Hamar valtaði yfir botnliðið

Hamar vann risasigur á botnliði ÍA á útivelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur á Akranesi urðu 54-112.

Hvergerðingar höfðu örugg tök á leiknum allan tímann og leiddu í leikhléi, 22-51. Munurinn jókst svo um tuttugu stig til viðbótar í 3. leikhluta og að lokum skildu 58 stig liðin að.

Dovydas Strasunskas átti mjög góðan leik fyrir Hamar og Larry Thomas var grátlega nálægt ferfaldri tvennu.

Hamar er í 4. sæti deildarinnar með 26 stig, jafnmörg stig og Breiðablik sem er í 3. sætinu. Þar fyrir ofan er Vestri með 28 stig og Skallagrímur á toppnum með 30 stig.

Tölfræði Hamars: Dovydas Strasunskas 26/8 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 19/5 fráköst, Larry Thomas 15/9 fráköst/8 stoðsendingar/7 stolnir, Julian Nelson 15, Smári Hrafnsson 11, Þorgeir Freyr Gíslason 8/4 fráköst, Mikael Rúnar Kristjánsson 7, Kristinn Ólafsson 7, Karl Friðrik Kristjánsson 2, Oddur Ólafsson 2.

Fyrri greinKasjúhnetuostur
Næsta greinTæpt í lokin hjá Þórsurum