Hamar úr leik í bikarnum

Kvennalið Hamars féll úr keppni í 8-liða úrslitum Powerade bikars kvenna í körfubolta í dag þegar liðið heimsótti Hauka. Haukar sigruðu 70-58.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 18-19, Hamri í vil. Hvergerðingar byrjuðu hins vegar hörmulega í 2. leikhluta þar sem Haukar skoruðu 22 stig gegn einu á fyrstu átta mínútunum. Hamar skoraði aðeins fjögur stig í þessum leikhluta og staðan var 43-23 í hálfleik.

Hamarskonur voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn niður í tíu stig, 64-54, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Nær komust þær ekki og Haukar kláruðu leikinn.

Katherine Graham var best í liði Hamars með 21 stig, Fanney Guðmundsdóttir skoraði 17 og Samantha Murphy 11.