Hamar úr leik í bikarnum

Hamar veitti 1. deildarliði Fjölnis verðuga keppni þegar liðið var slegið út úr 16-liða úrslitum Valitor-bikars karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var í járnum framan af en Fjölnir komst yfir á 30. mínútu með skoti fyrir utan vítateig. Tæpum tíu mínútum síðar komst Fjölnir í 2-0 með marki beint úr aukaspyrnu og þannig var staðan í leikhléinu.

Hamarsmenn byrjuðu vel í seinni hálfleik og Arnþór Ingi Kristinsson minnkaði muninn í 2-1 á 48. mínútu eftir klafs í vítateignum. Fjölnismenn voru þó fljótir að auka muninn á ný en þeir fengu vítaspyrnu á 54. mínútu og skoruðu úr henni.

Tveimur mínútum síðar minnkaði Ragnar Valberg Sigurjónsson muninn í 3-2 fyrir Hamar þegar hann slapp einn innfyrir en nær komust Hvergerðingar ekki og þetta urðu lokatölur leiksins.