Hamar úr leik í bikarnum

Hamar tapaði 1-4 á Grýluvelli í kvöld þegar Reynir Sandgerði kom í heimsókn í 2. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu.

Reynismenn komust yfir á 25. mínútu en Hákon Þór Harðarson jafnaði metin fyrir Hamar þremur mínútum síðar með góðu marki eftir hornspyrnu. Hamarsmenn hefðu getað bætt við mörkum í kjölfarið en gestirnir komust svo í 1-2 á 41. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Sandgerðingar skoruðu svo tvívegis í síðari hálfleik og tryggðu sér sæti í 32-liða úrslitunum.