Hamar úr leik í bikarnum

Jaylen Moore var stigahæstur hjá Hamri með 25 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamarsmenn voru grátlega nærri því að vinna sinn fyrsta leik í vetur þegar þeir tóku á móti Hetti í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta.

Hvergerðingar voru alls ekki með á nótunum í upphafi leiks og Höttur skoraði fyrstu þrettán stigin. Staðan að loknum 1. leikhluta var 14-22. Hamar svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og náði að breyta stöðunni í 35-38 en Höttur leiddi í hálfleik, 38-41.

Seinni hálfleikurinn var spennandi en Höttur hafði forystuna allt þar til tæpar sjö mínútur voru eftir af leiknum að Hamar komst yfir í fyrsta sinn, 72-70.

Í framhaldinu var Hamar skrefinu á undan en þeir fóru illa að ráði sínu í síðustu sóknunum og ótímabær skot komu boltanum aftur í hendur Hattar, sem þakkaði fyrir sig með því að skora sigurkörfuna, 82-84, þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum. Hamar stillti upp í lokasókn þar sem Jaylen Moore brenndi af flautuskoti fyrir utan þriggja stiga línuna með tvo Hattarmenn í sér. Ekkert dæmt og leiktíminn úti.

Moore var stigahæstur hjá Hamri með 25 stig og 6 stoðsendingar, Franck Kamgain skoraði 20 stig og tók 5 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 17 stig, Danero Thomas skoraði 12 stig og tók 7 fráköst og Ragnar Nathanaelsson skoraði 6 stig og tók 14 fráköst.

Sextán liða úrslitunum lýkur annað kvöld en þá tekur 1. deildarlið Selfoss á móti úrvalsdeildarliði Keflavíkur í Gjánni á Selfossi kl. 19:15.

Fyrri greinListaverkauppboð til styrktar Grindvíkingum
Næsta greinÓmissandi tónleikar á aðventunni