Hamar úr leik í bikarnum

Óvænt úrslit urðu í Powerade-bikar karla í körfubolta í gærkvöldi þegar Hamar tapaði fyrir 2. deildarliði Reynis í Sandgerði í framlengdum leik.

Um helgina fara fram leikir í 32-liða úrslitum keppninnar.

Hvergerðingar töpuðu 91-89 í Sandgerði og eru því óvænt úr leik. Hamarsliðið var töluvert frá sínu besta en Hvergerðingar leika deild ofar en Sandgerðisliðið. Staðan var 85-85 eftir venjulegan leiktíma en heimamenn voru ákveðnari í framlengingunni og unnu tveggja stiga sigur. Halldór Gunnar Jónsson var stigahæstur Hamarsmanna með 21 stig , Bragi Bjarnason skoraði 17 og Danero Thomas 15.

Á sama tíma lék FSu gegn Aftureldingu á útivelli og átti ekki í vandræðum með að landa sigri. Lokatölur urðu 43-96 en Geir Helgason var besti maður vallarins og skoraði 40 stig fyrir FSu, þar af tíu þriggja stiga körfur. Erlendur Stefánsson skoraði 20 stig fyrir FSu.

Í dag taka Laugdælir á móti Snæfelli og á morgun leikur Þór Þorlákshöfn gegn Sindra á útivelli.

Fyrri greinFimm marka tap í Kaplakrika
Næsta greinHálft þriðja þúsund í fjórtán skólum