Hamar úr leik í bikarnum – Ægir og Árborg leika í kvöld

Hamar er úr leik eftir tap gegn 3. deildarliði Augnabliks í Bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu í gærkvöldi.

Liðin mættust í Kórnum í Kópavogi og var leikurinn markalaus allt fram á 70. mínútu að heimamenn komust yfir. Ellefu mínútum síðar var staðan orðin 2-0 og þær urðu lokatölur leiksins.

Fimmtán leikir eru í 2. umferð bikarkeppninnar í kvöld en þá taka Ægismenn á móti Víkingi frá Ólafsvík og Árborg fær KB í heimsókn.

Leikur Ægis og Víkings hefst kl. 19 en Árborg og KB hefja leik kl. 20. Liðin sem sigra í 2. umferð eru komin í 32-liða úrslit en þá bætast liðin úr Pepsi-deildinni í pottinn.