Hamar úr fallsæti

Hvergerðingar fagna fyrra marki Mustafá. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann fjórða sigurinn í röð í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tók á móti Elliða á Grýluvelli. Þá vann Árborg góðan útisigur á Vængjum Júpíters.

Lokatölur á Grýluvelli urðu 3-1 og eftir langt sumar hafa Hamarsmenn loksins lyft sér úr fallsæti. Mustafá Troncoso kom Hamri yfir á 36. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Hvergerðingar héldu sínu striki eftir hlé og Unnar Magnússon og Mustafá bættu við mörkum um miðjan seinni hálfleikinn. Elliði klóraði í bakkann korteri fyrir leikslok og lokatölur urðu 3-1.

Árborg heimsótti Vængi Júpíters á gervigras Fjölnis í Grafarvogi í kvöld. Vængirnir voru meira með boltann í fyrri hálfleik en Árborgarar skoruðu mörkin. Magnús Arnar Hafsteinsson kom Árborg yfir á 26. mínútu og staðan var 0-1 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var opinn og Árborg fékk fín færi en boltinn fór ekki í netið fyrr en á 67. mínútu þegar Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði úr vítaspyrnu. Lokatölur 0-2.

Hamar lyfti sér upp í 8. sæti deildarinnar og er nú með 15 stig. Lokaumferðin verður æsispennandi en Kría og KFS eru fyrir neðan Hamar með 13 stig. Árborg er áfram í 3. sætinu, nú með 30 stig. Árborg á enn möguleika á 2. sætinu en þarf að vinna KFS stórt í lokaumferðinni og treysta um leið á að KH tapi sínum leik.

Fyrri greinGuðmunda skoraði tímamótamark
Næsta greinGunnar ráðinn upplýsingafulltrúi nýframkvæmda