Hamar uppi þrátt fyrir tap

Hamar tapaði 2-1 þegar liðið sótti Njarðvík heim í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Þrátt fyrir tapið eru Hamarsmenn öruggir með sæti í 2. deild á næsta ári því Fjarðabyggð tapaði sínum leik í dag.

Fjarðabyggð er því fallið ásamt KFR.

Fyrri hálfleikur var fjörugur og Hvergerðingar áttu hættulegri færi framan af leiknum. Njarðvík komst hins vegar yir á 29. mínútu, nokkuð gegn gangi leiksins, með klaufalegu sjálfsmarki frá framherjanum Sene Abdalha sem lék í stöðu miðvarðar í leiknum. Eftir markið breyttist gangur leiksins og Njarðvíkingar sóttu meira en Björn M. Aðalsteinsson var á tánum í markinu og staðan var 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, Hamar var sterkari og skapaði sér betri færi. Ingvi Rafn Óskarsson jafnaði leikinn fyrir Hamar á 61. mínútu eftir þunga sókn og eftir það var leikurinn í járnum. Njarðvíkingar náðu svo að koma boltanum í netið á 83. mínútu eftir klaufagang í vörn Hamars og þar við sat.