Hamar upp í 2. sætið

Hamar vann gríðarlega mikilvægan sigur á Vestra á útivelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar fór upp í 2. sætið í deildinni með sigrinum.

Lokatölur á Ísafirði urðu 97-99 en Hamar hefur nú 30 stig í 2. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Vestri og Breiðablik sem eru í 3. og 4. sæti. Sigurinn var því Hvergerðingum mikilvægur í baráttunni um heimavallarréttinn í úrslitakeppni deildarinnar.

Hamar byrjaði af miklum krafti í leiknum og leiddi 18-33 eftir 1. leikhluta. Staðan í leikhléi var 38-51. Þriðji leikhluti var í járnum en í þeim fjórða fóru Vestramenn að þjarma að gestunum. Heimamenn nálguðust jafnt og þétt en Hamar varði forskotið og þó að Vestri hafi skorað síðustu fimm stig leiksins á lokamínútunni þá dugði það ekki til og lokatölur urðu 97-99.

Tölfræði Hamars: Julian Nelson 25/8 fráköst, Larry Thomas 14/11 fráköst/6 stolnir, Dovydas Strasunskas 14/10 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 14/8 stoðsendingar/5 stolnir, Þorgeir Freyr Gíslason 14/9 fráköst, Ísak Sigurðarson 11, Oddur Ólafsson 4, Mikael Rúnar Kristjánsson 3/4 fráköst.

Fyrri greinFóru útaf slóðanum í Reykjadal
Næsta greinÖruggur sigur gestanna