Hamar undir gegn ÍA

Hamar tapaði gegn ÍA í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í gærkvöldi, 77-93 í Hveragerði. Næsti leikur er á sunnudagskvöld á Skaganum.

Alltof mikil gestrisni var í heimamönnum í byrjun leiks og skoruðu gestirnir hverja körfuna á fætur annarri og hittu mjög vel allan leikhlutann. Hamarsmenn spiluðu mjög slaka vörn og voru alltof langt frá mönnunum og enginn var klár í hjálparvörn.

Skagamenn spiluðu 1 2 2 svæðis pressu á hálfum velli og gekk illa hjá Hamar að komast í gegnum hana. Þeir létu leiða sig ítrekað út að hliðarlínu við miðlínu þar sem að þeir lentu með tvo varnarmenn á sér og illa gekk að koma boltanum upp völlinn. Staðan eftir 1. leikhluta var 12 – 29 ÍA í vil.

Annar leikhluti byrjaði ekkert betur hjá Hamrsmönnum þar sem gekk illa við körfuna hjá gestunum. Það var þó meira jafnræði með liðunum fram að hálfleik en Skagamenn héldu alltaf sínu forskoti. Staðan í hálfleik var 29-50.

Hamrsmenn kom sterkari til leiks í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn jafnt og þétt í byrjun 3. leikhluta. Skagamenn hleyptu þeim þó aldrei of nálægt og náðu að halda muninum í tíu til fimmtán stigum en staðan eftir 3. leikhluta var 55-70 Skagamönnum í vil.

Bæði lið komu ákveðin til leiks í loka leikhlutanum. Hamrsmenn náðu þó aldrei að gera alvöru atlögu að sigri. Þeir virtust andlausir í fyrri hálfleik og pirraðir í seinni hálfleik á meðan að mikil leikgleði og barátta var í Skagamönnum. Leiknum lauk með sigri gestanna frá Akranesi 77 – 93.

Atkvæðamestir hjá Hamar voru Louie Kirkman með 19 stig og 9 fráköst, Lárus Jónsson skoraði 16 stig, Calvin Wooten 13 og Ragnar Nathanaelsson 10 stig og 9 fráköst.

Umfjöllun karfan.is

Fyrri greinÖruggt hjá Selfossi gegn ÍR
Næsta greinÞórsarar töpuðu á Króknum