Hamar tryggði sér 2. sætið

Hamar tryggði sér 2. sætið í 1. deild karla í körfubolta þegar lokaumferð deildarinnar fór fram í kvöld. Allt féll með Hamri sem sigraði ÍG á meðan Skallagrímur og Höttur töpuðu sínum leikjum.

Mesta spennan var á Ísafirði þar sem úrslitin réðust á síðustu sekúndunum en KFÍ sigraði Skallagrím 90-89 og þar með var ljóst að Hamar færi uppfyrir Skallagrím eftir 92-96 útisigur gegn ÍG. Höttur tapaði hins vegar fyrir Breiðabliki og Hattarmenn misstu Hamar og Skallagrím uppfyrir sig.

Hamar mætir ÍA í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og á heimaleikjaréttinn en tvo sigra þarf til að komast í úrslitaviðureignina, gegn Hetti eða Skallagrím.

Leikur ÍG og Hamars í kvöld var jafn og spennandi en Hamar var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og vann sanngjarnan sigur.

Calvin Wooten var stigahæstur hjá Hamri með 36 stig, Louie Kirkman skoraði 15 stig, Lárus Jónsson 12 og Svavar Páll Pálsson 11.

Fyrri greinDagrenning bjargaði deginum
Næsta greinFínn lokasprettur hjá FSu