Hamar tryggði sér 2. sætið

Hamar tryggði sér 2. sætið í 1. deild karla í körfubolta þegar lokaumferð deildarinnar fór fram í kvöld. Allt féll með Hamri sem sigraði ÍG á meðan Skallagrímur og Höttur töpuðu sínum leikjum.

Mesta spennan var á Ísafirði þar sem úrslitin réðust á síðustu sekúndunum en KFÍ sigraði Skallagrím 90-89 og þar með var ljóst að Hamar færi uppfyrir Skallagrím eftir 92-96 útisigur gegn ÍG. Höttur tapaði hins vegar fyrir Breiðabliki og Hattarmenn misstu Hamar og Skallagrím uppfyrir sig.

Hamar mætir ÍA í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og á heimaleikjaréttinn en tvo sigra þarf til að komast í úrslitaviðureignina, gegn Hetti eða Skallagrím.

Leikur ÍG og Hamars í kvöld var jafn og spennandi en Hamar var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og vann sanngjarnan sigur.

Calvin Wooten var stigahæstur hjá Hamri með 36 stig, Louie Kirkman skoraði 15 stig, Lárus Jónsson 12 og Svavar Páll Pálsson 11.