Hamar tók af skarið undir lokin

Máté Dalmay, þjálfari Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar sigraði Skallagrím þegar keppni hófst aftur í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en Hrunamenn og Selfoss töpuðu sínum leikjum.

Hamar heimsótti Skallagrím í Borgarnes í hörkuleik. Mjótt var á mununum allan tímann en Skallagrímur leiddi í leikhléi, 49-47.

Heimamenn juku forskotið lítillega í 3. leikhluta og staðan var 75-71 að honum loknum. Hvergerðingar skoruðu hins vegar tíu fyrstu stigin í 4. leikhluta sem þeir hófu á 16-4 áhlaupi. Þar með var staðan orðin 79-87, Hamri í vil og þeir héldu forskotinu út leikinn, þrátt fyrir að Skallagrímsmenn önduðu rækilega ofan í hálsmálið á þeim.

Jose Aldana var stigahæstur hjá Hamri með 29 stig og 15 fráköst, Ruud Lutterman skoraði 24 stig og Pálmi Geir Jónsson 23.

Selfoss og Hrunamenn töpuðu
Selfoss heimsótti Vestra á Ísafjörð. Vestramenn náðu góðu forskoti í 1. leikhluta en staðan í hálfleik var 51-39, Vestra í vil. Ísfirðingar bættu í í 3. leikhluta en Selfyssingar voru sterkir á lokakaflanum og minnkuðu muninn í 82-75 sem urðu lokatölur leiksins.

Gunnar Steinþórsson og Sveinn Búi Birgisson voru stigahæstir Selfyssinga með 16 stig og Sveinn tók 8 fráköst að auki og Arnór Bjarki Eyþórsson skoraði 11.

Á Hornafirði mættust Sindri og Hrunamenn og þar höfðu Sindramenn frumkvæðið stærstan hluta leiksins. Staðan í leikhléi var 52-36 og Hornfirðingar bættu um betur á lokakaflanum og unnu að lokum 105-80.

Corey Taite skoraði 35 stig fyrir Hrunamenn, Florijan Jovanov skoraði 11 og Karlo Lebo skoraði 7 stig og tók 12 fráköst.

Mótið nýhafið – og það er janúar
Hamar er í efsta sæti deildarinnar ásamt Álftanesi með tvo sigra, Hrunamenn eru um miðja deild með einn sigur en Selfyssingar eru stigalausir þegar tveimur umferðum er lokið í 1. deildinni.

Fyrri greinVíkingarnir of stór biti
Næsta greinKaritas til liðs við Íslandsmeistarana