Hamar-Þór vann í framlengingu

Emma Hrönn Hákonardóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór vann frábæran sigur á Snæfelli í 1. deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í dag, 75-71. Úrslitin réðust í framlengingu.

Gestirnir byrjuðu af krafti og komust í 3-12 en staðan var 13-18 að loknum 1. leikhluta. Hamar-Þór minnkaði muninn í eitt stig í upphafi 2. leikhluta en þá bættu Hólmarar í og náðu mest tíu stiga forskoti. Staðan í hálfleik var 26-32.

Þriðji leikhluti var æsispennandi og Hamar-Þór andaði hressilega niður um hálsmálið á gestunum. Í upphafi þess fjórða skoraði Snæfell sjö stig í röð og náði tólf stiga forskoti en seiglan skilaði hér hjá þeim sunnlensku sem unnu upp forskotið og kláruðu venjulegan leiktíma með frábæru 14-2 áhlaupi.

Staðan var 68-68 þegar lokaflautið gall en í framlengingunni voru heimakonur sterkari. Gígja Rut Gautadóttir opnaði sýninguna á þriggja stiga körfu og Emma Hrönn Hákonardóttir og Jenna Mastellone kláruðu svo leikinn af öryggi á vítalínunni. Lokatölur 75-71.

Emma Hrönn var stigahæst hjá Hamri-Þór með 22 stig og Mastellone átti sömuleiðis góðan leik með 20 stig og 15 varnarfráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar-Þór er í 4. sæti með 16 stig en Snæfell er í 2. sæti með 20 stig.

Hamar-Þór – Snæfell 75-71 (13-18, 13-14, 21-20, 21-16, 7-3)
Tölfræði Hamars-Þórs: Emma Hrönn Hákonardóttir 22/7 fráköst, Jenna Mastellone 20/15 fráköst/5 stolnir, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 13/8 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 12/7 fráköst/4 varin skot, Valdís Una Guðmannsdóttir 4, Stefanía Ólafsdóttir 2, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 2.

Fyrri greinGestirnir gáfu í í lokin
Næsta greinKarlotta lánuð á Selfoss