Hamar-Þór úr leik eftir hetjulega baráttu

Helga María Janusdóttir átti frábæran leik í kvöld, skoraði 18 stig og tók 5 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Hamars-Þórs er komið í sumarfrí eftir tap í fjórða leiknum í einvíginu gegn Ármanni í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld.

Eftir sigur í fyrsta leik einvígisins tók Ármann næstu þrjá leiki og sigraði því 1-3 í einvíginu. Hamar-Þór lék án bandaríska leikmannsins Astaja Tyghter í síðustu þremur leikjunum en hún hefur leitt liðið í flestum tölfræðiþáttum tímabilsins. Það var þó engan bilbug að finna á Hamri-Þór í kvöld sem átti frábæra kafla í leiknum.

Hamar-Þór komst í 11-2 í upphafi leiks og leiddi að loknum 1. leikhluta, 22-18. Þær sunnlensku hófu 2. leikhluta á þriggja stiga skothríð og juku forskotið enn frekar en Ármann sótti í sig veðrið undir lok fyrri hálfleiks og breytti stöðunni í 40-36 áður en hálfleiksflautan gall.

Þriðji leikhluti var í járnum en Ármann átti góðan 12-0 kafla um hann miðjan og þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 57-63. Hamar-Þór þjarmaði að Ármenningum á lokakafla leiksins en gestirnir náðu að kreista fram sigur á síðustu tveimur mínútunum þar sem Ármann skoraði síðustu sjö stig leiksins. Lokatölur 71-82.

Helga María Janusdóttir var stigahæst hjá Hamri-Þór í kvöld með 18 stig en Julia Demirer var framlagshæst með 15 stig og 13 fráköst.

Tölfræði Hamars-Þórs: Helga María Janusdóttir 18/5 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 16/5 fráköst, Julia Demirer 15/13 fráköst/5 stolnir, Ingibjörg Bára Pálsdóttir 8, Gígja Rut Gautadóttir 8/5 fráköst/6 varin skot, Hrafnhildur Magnúsdóttir 6/4 fráköst/5 stoðsendingar.

Fyrri greinHamar enn án stiga
Næsta greinÞórsarar unnu – en misstu af titlinum